Þingmennirnir Guðmundur Steingrímsson (þá í Framsókn en nú utan flokka), Ólína Þorvarðardóttir (Samfylking), Björn Valur Gíslason (VG), Þuríður Backman (VG) og Unnur Brá Konráðsdóttir (Sjálfst.fl.) hefðu ekki komist á þing í síðustu alþingiskosningum ef vægi atkvæða hefði verið jafnt.

Í stað þeirra hefðu þau Helga Sigrún Harðardóttir (Framsókn), Óli Björn Kárason (Sjálfst.fl.), Ólafur Þór Gunnarsson (VG), Kolbrún Halldórsdóttir (VG) og Baldur Þórhallsson (Samfylking) fengið þingsæti.

Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag en þeir Hjálmar Gíslason, framkvæmdastjóri Datamarket, og stærðfræðingurinn Þorkell Gíslason tóku fyrir helgi saman hvernig jafnt atkvæðavægi hefði breytt úrslitum í kosningunum árið 2009.

Í frétt blaðsins er þó vitnað í orð Þorkels á heimasíðu hans um að alltaf sé varhugavert að nota úrslit úr liðnum kosningum til að spá hvað hefði gerst ef kosningalög hefðu verið öðruvísi á þeim tíma. Kjósendur hagi sér ávallt að nokkru með tilliti til þess fyrirkomulags sem gildi hverju sinni. Þó liggi fyrir að eitt þingsæti muni færast frá Norðvesturkjördæmi til Suðvesturkjördæmis samkvæmt gildandi lögum fyrir næstu kosningar.

Breytingar á skiptingunni voru settar í lög árið 1999 til að jafna vægi atkvæða milli landshluta. Núverandi kjördæmaskipting felur í sér þrjú kjördæmi á höfuðborgarsvæðinu og þrjú utan þess.