Nú þegar meira en tveir mánuðir eru síðan Microsoft gerði yfirtökutilboð í Yahoo er þolinmæði þeirra á þrotum. Framkvæmdastjóri Microsoft, Steve Ballmer, sendi í gær stjórn Yahoo bréf þar sem hann gefur þeim þriggja vikna frest til að taka tilboði Microsoft í fyrirtækið. Annars hyggst Microsoft lækka boð sitt og fara með það til hluthafa Yahoo.

Ef af samningum verður yrði það stærsta yfirtaka í hátækniiðnaði hingað til, en samningurinn er að andvirði um 42,2 milljarða Bandaríkjadollara.

Í bréfi Steve Ballmer til stjórnar Yahoo segir m.a. „Ef við höfum ekki lokið samningum innan þriggja vikna neyðumst við til að taka málið upp beint við hluthafa ykkar og í kjölfarið hefja umboðsbaráttu til að kjósa nýja stjórn.“

Tilboð Microsoft var 62% hærra en markaðsvirði Yahoo.  „Kaupbætirinn táknaði vinsemd okkar í ykkar garð. Ef við neyðumst til að taka tilboð okkar til hluthafa myndi það hafa óæskileg áhrif á verð fyrirtækis ykkar að okkar mati, sem myndi endurspeglast í nýju tilboði.“