*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 8. nóvember 2004 08:47

Olís biður afsökunar

yfirlýsing frá forstjóra Olís

Ritstjórn

"Olíuverzlun Íslands hf. og viðkomandi stjórnendur biðja viðskiptavini félagsins og aðra landsmenn afsökunar á því, sem miður hefur farið í starfsemi félagsins. Félagið hefur hins vegar margar athugasemdir við skýrslu Samkeppnisstofnunar og telur nauðsynlegt að fá skorið úr um málið fyrir áfrýjunarnefnd samkeppnismála og ef þörf krefur fyrir dómstólum landsins;" þannig hljómar yfirlýsing sem forstjóri Olís hefur sent frá sér. Þar segir ennfremur:

"Sú erfiða ákvörðun var tekin innan félagsins, að tjá sig ekki að sinni í fjölmiðlum um skýrslu Samkeppnisstofnunar um meint ólögmætt samráð olíufélaganna. Augljóslega skaðar það félagið í þeirri umræðu, sem nú fer fram. Ástæðan er sú að málið er einnig til rannsóknar hjá embætti Ríkislögreglustjóra.

Stjórnendur félagsins reyndu á fundum með starfsmönnum Samkeppnis­stofnunar að upplýsa málið. Starfsmenn Samkeppnisstofnunar völdu hins vegar þá leið í skýrslu sinni að gera hlut olíufélaganna og starfsmanna þeirra enn verri, en efni standa til og í mörgum tilfellum, að því er virðist, draga vísvitandi rangar ályktanir í einstökum efnisatriðum. Þátttaka í opinberri umfjöllun nú er félaginu og stjórnendum þess ómöguleg, þar sem slíkt gæti skaðað réttarstöðu félagsins og einstaklinga á síðari stigum.

Ég bið um þolinmæði viðskiptavina og annarra landsmanna til að bíða með endanlegan dóm, þar til málið hefur fengið umfjöllun í réttarkerfi landsins. Félagið og ég sem forstjóri þess mun axla þá ábyrgð, sem réttarkerfi landsins ákvarðar."

Einar Benediktsson