Olís keypti í vor meirihlutann í Eyki, eignarhaldsfélagi Hátækni ehf., og er nú verið að ganga frá kaupum á þeim hlutum sem eftir stóðu. Hátækni sérhæfir sig í sölu og þjónustu á fjarskiptatækjum, flatskjám, heimabíókerfum og ýmsum raftækjum.

Hátækni rekur m.a. verslun að Ármúla 26 í Reykjavík og þjónustuverkstæði fyrir Nokia farsíma og talstöðvar frá Motorolla. Ennfremur hefur Hátækni um langt árabil rekið eina þekktustu loftræstideild landsins. Þar er veitt ráðgjöf við hönnun loftræstikerfa og stýrikerfa ýmiskonar ásamt því að selja búnað fyrir hita og loftræstikerfi.

Einar Marinósson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Olís, segir að félagið hafi um árabil átt hlut í Hátækni. Í vor hafi síðan verið ráðist í að kaupa meirihluta í eignarhaldsfélaginu sem stendur að baki Hátækni. Nú sé unnið að uppkaupum á því hlutafé sem eftir var og ljúki því ferli innan tíðar.