Olís eða Olíuverzlun Íslands hf. mun flytja höfuðstöðvar sínar tímabundið í haust úr Sundagörðum 2 í Reykjavík í nýja glerturninn við Höfðatorgið í Reykjavík.

Einar Benediktsson, forstjóri fyrirtækisins, segir að forsaga málsins sé sú að fyrirtækið hafi selt núverandi húsnæði árið 2007 til félags í eigu Karls Steingrímssonar sem gjarnan er kenndur við Pelsinn.

Ætlunin var að byggja nýjar höfuðstöðvar við Sundahöfnina sem slegið var á frest við hrunið. Á sama tíma varð fall á leigumarkaði og framboð jókst á leiguhúsnæði. Ekki náðist þó samkomulag við nýjan húseiganda um lækkun leiguverðs.

Olís bauðst þá að lækka sinn árlega leigukostnað um tugi milljóna króna með því að flytja í glerturninn sem nú er í umsjón Íslandsbanka.

Hyggjast byggja nýjar höfuðstöðvar

„Við ætluðum þá að fara að byggja 7.500 fermetra vöruhótel og skrifstofurými fyrir nýjar höfuðstöðvar félagsins á lóð sem við eigum að Klettagörðum 27. Við vorum búnir að hanna það og gera tilbúið til útboðs haustið 2008 þegar hrunið varð. Við vorum þá einnig búnir að tryggja fjármögnun verkefnisins. Við hrunið slógum við þessu á frest. Síðan hafa ekki tekist samningar um áframhaldandi leigu við núverandi eiganda hér og fengum betra tilboð. Við ætlum því að flytja okkur tímabundið þar til við förum vonandi í þessa uppbyggingu við Klettagarða."

Einar segir að Olís hafi verið með 40.000 fermetra lóð í Laugarnesinu sem seld hafi verið borginni á sínum tíma. Við söluna fékk Olís að velja sér framtíðarlóð upp á 15.000 fermetra á Sundahafnarsvæðinu. Þar er búið að hanna vöruhótel  með skrifstofum á einni hæð á efstu hæð hússins. Þessi lóð er á horninu við Laugarnestanga skammt frá Rönning.

2000 fermetrar í Höfðatorgi

„Við verðum með alla sjöttu hæðina við Höfðatorg og erum þar með 2.000 fermetra sem við fáum að innrétta eftir okkar þörfum. Þetta mun ganga mjög hratt fyrir sig þar sem við áttum til alla þarfagreiningu vegna hönnunar á húsinu við Klettagarða. Það var því hægt að útfæra hana beint á þennan grunnflöt við Höfðatorg og var það gert á einni viku."

Eigendur Olís í dag eru Einar Benediktsson og Gísli Baldur Garðarsson hæstaréttarlögmaður en þeir keyptu tæp 71% í félaginu af Hydro Texaco A/S og Keri hf. árið 2003 og gerðu öðrum hluthöfum yfirtökutilboð. Var það í gegnum eignarhaldsfélagið FAD 1830 ehf.