Olís kynnti í dag nýja dísilolíu, sem blönduð er með vetnismeðhöndlaðri lífrænni olíu (VLO). Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að þessi blandaða olía sé hreinna og umhverfisvænna dísileldsneyti en þekkst hefur. VLO virkar eins og önnur dísilolía, en mengar minna.

Vetnismeðhöndlaða olían er blönduð í dísilolíu Olís sem hlutfall af seldu magni í samræmi við evrópskar reglugerðir. Íblöndunarhlutfallið skilar í heildina 5% minni koltvísýringsútblæstri dísilbifreiða. Hægt er að nota 100% hreina VLO á dísilvélar, en með blönduninni segist Olís vilja stuðla að því að gera olíuna samkeppnisfæra í verði. Íblöndunin er ekki sögð hafa nein áhrif á lítraverð eða eldsneytiseyðslu, en að hún dragi hins vegar úr koltvísýringsútblæstri og losun gróðurhúsalofttegunda.

Hægt er að nota olíuna á allar venjulegar dísilvélar án þess að breyta þeim eða endurstilla. Hún er sögð afar kuldaþolin, hún brenni betur og hreinna en önnur dísilolía og fari því betur með vélar bifreiða.

Í tilkynningunni segir að framleiðslu á lífdísilolíu hafi fylgt nokkur umræða um hækkandi matvælaverð og möguleg áhrif á fæðuframleiðslu, sem orsakað gæti matarskort í þróunarlöndum. Við framleiðslu á VLO sé hins vegar notast við fjölbreytt hráefni úr umhverfinu, t.d. jurtaolíu, en einnig margvíslegan dýrafituúrgang frá veitinga- og sláturhúsum sem annars yrði hent.