Mubadala Development Co, sem er einn umsvifamesti ríkisfjárfestingasjóðurinn (e. sovereign wealth fund) við Persaflóa, hyggst kaupa í bandaríska stórfyrirtækinu General Electric fyrir  8 milljarða Bandaríkjadali. Einnig hefur verið tilkynnt að sjóðurinn og General Electric ætli að eiga með sér náið samstarf. Það mun meðal annars felast í stofnun nýs sameiginlegs félags sem mun einbeita sér að verkefnum í Miðausturlöndum og Afríku.

Mubadala og General Electric munu leggja 4 milljarða dala hvort í hið nýja félag. Einnig hefur verið tilkynnt um að ríkisfjárfestingasjóðurinn hyggist verða einn af tíu stærstu stofnanafjárfestunum í hluthafahópi General Electric. Staðan mun verða byggð upp með kaupum á opnum markaði en ekkert hefur verið uppljóstrað um tímasetningu kaupanna. Aðeins kom fram í tilkynningunni að kaupin myndu hefjast þegar aðstæður leyfðu.

Mubudala hefur verið í verslunarferð í Bandaríkjunum að undanförnu. Nýlega keypti sjóðurinn 7,5% hlut í einkafjárfestingasjóðnum Carlyle Group og 8% hlut í Advanced Micro Devices. Andvirði þessara fjárfestinga nam ríflega 2 milljörðum dala. Mubudala er eign í stjórnvalda í Abu Dahbi en sjóðir á þeirra vegum hafa verið virkir í fjárfestingum á Vesturlöndum að undanförnu. Til að mynda keypti einn þeirra hlut í Citigroup fyrir um 7,5 milljarða dala á síðasta ári og nýlega tilkynnti annar um kaup á  90% í Chrysler-byggingunni – einu magnaðasta kennileyti New York-borgar.

Fjárfestingar ríkisfjárfestingasjóða hafa vakið upp ugg meðal sumra stjórnmálamanna í Washington og hefur eignarhald á fjármálafyrirtækjum meðal annars verið nefnt í þessu samhengi. En lánsfjárkreppan hefur að einhverju leyti þaggað niður í áhyggjuröddum þar sem að sú innspýting sem felst í fjárfestingum erlendra aðila er vel þegin um þessar mundir.

Fram kemur í frétt í Wall Street Journal að útsendarar stjórnvalda í Abu Dhabi hafi reynt að sannfæra stjórnmálamenn beggja vegna Atlantsála að undanförnu um að fjárfestingar sjóða á vegum stjórnvalda myndu aldrei stýrast af pólitískum hagsmunum heldur eingöngu af arðsemiskröfu.