Heimsmarkaðsverð á olíu hefur lækkað það sem af er degi. Að mati fréttastofunnar Reuters er það rakið til dvínandi vona um að OPEC ríkin og Rússland komist að samkomulagi um takmörkun framleiðslumarks á olíu.

Þegar þetta er skrifað hefur verð á Brent hráolíu lækkað um 3,04% og er nú 33,2 dalir á tunnuna. Verð á Texas hráolíu hefur lækkað um 3,13% og er nú 30,62 dalir á tunnuna.

Orkumálaráðherrar Venesúela og Rússlands sögðu í gær að mögulegt væri að komast að samkomulagi um að draga úr framleiðslu á olíu til að hækka verð. Sérfræðingar hafa hins vegar sagt að það sé ólíklegt að OPEC ríkin myndu eiga í samstarfi við Rússlands um að draga úr framleiðslu.

Birgðastaða olíufyrirtækja er ennþá að aukast. Birgðir í Bandaríkjunum eru nú 499,6 milljónir tunna og hefur aldrei verið meiri. Margir telja að bráðlega komi sú staða að ekki verði lengur hægt að auka við birgirnar þar sem fyrirtækin hafa ekki aðstöðu til að geyma meira magn af olíu.