Olíudreifing hefur samið við Vodafone um fjarskiptaþjónustu til næstu þriggja ára að því er segir í tilkynningu.

Auk þess að nýta GSM þjónustu Vodafone, nettengingar og hefðbunda símaþjónustu mun Olíudreifing kaupa aðgang að svokölluðu MetroNeti Vodafone, fjölþjónustuneti sem sameinar flutning á tali, myndum og gögnum í einni nettengingu.


Fyrir Olíudreifingu skapar samningurinn við Vodafone fjölmörg tækifæri til hagræðingar í rekstri. Til dæmis verða símkort frá Vodafone sett í afgreiðslubúnað í bifreiðum Olíudreifingar sem tengist um símkortið beint við dreifikerfi Olíudreifingar.


Meginverkefni Olíudreifingar er dreifing og birgðahald á fljótandi eldsneyti fyrir móðurfélög sín á sem öruggastan hátt sem og sérfræði- og viðhaldsþjónusta við þjónustustöðvar þeirra ásamt því að þjónusta birgðastöðvar og bifreiðar Olíudreifingar ehf. Starfsmenn Olíudreifingar eru 150.

Vodafone á Íslandi er fjarskiptafyrirtæki í eigu Teymis hf. sem skráð er í Kauphöll Íslands. Starfsmenn Vodafone eru um 350 talsins og þjónusta viðskiptavini á heimilum og hjá fyrirtækjum um land allt með farsíma, síma, nettengingar og sjónvarp. GSM dreifikerfi Vodafone nær til 98% landsmanna og með samstarfi við Vodafone Group, eitt öflugasta fjarskiptafyrirtæki í heimi, er viðskiptavinum Vodafone tryggð örugg farsímaþjónusta um allan heim.