Færeyska olíufélagið Atlantic Petroleum, sem skráð er í Kauphöll Íslands, hefur ákveðið að skrá félagið einnig kauphöllina í Kaupmannahöfn, segir í tilkynningu.

Ástæðan sú að félagið hefur áhuga á því að breikka mögulegan fjárfestahóp, en í hlutafjárútboði til skráningar í Danmörku safnaði félagið um 120 milljónum danskra króna, sem samsvarar um 1,5 milljörðum íslenskra króna. Fjórföld umframeftirspurn myndaðist í útboðinu.

Fyrirtækið segir að fjármagnið verð nýtt til vaxtar með yfirtökum.

Atlantic Petroleum gerði tilraun til að sækja 200 milljónir (2,55 milljarðar íslenskra króna) á íslenskan hlutabréfamarkað fyrr í þessum mánuði en tókst einungis að sækja 121 milljón (1,6 milljarða íslenskra króna) til fjárfesta.

Sérfræðingar á hlutabréfamarkaði segja að nú sé óheppilegur tími til þess að sækja fé á íslenskan hlutabréfamarkað og telja að fyrirtækjunum hefði tekist að ná settu marki hefðu þau nálgast markaðinn í fyrra, eða jafnvel í byrjun árs. Flestir segja að fjámagn á markaðnum hafi minnkað töluvert og að fjárfestar séu áhættufælnir.

Greiningardeild Kaupþings banka segir að hlutafjárútboð Atlantic hafi ekki farið eins og best var á kosið. Í útboðinu var stefnt á að selja 54.550 til 369.989 hluti að nafnvirði 100 danskar krónur en niðurstaða var að 220.752 hlutir voru skráðir.

Útboðsgengið var 550 krónur á hlut. Niðurstaðan er engu að síður fjórum sinnum betri en lágmarksupphæðin sem stefnt var að. Flestir sérfræðingar eru sammála um að bjarnarmarkaður ríki hér áfram og jafnvel út árið.