Olíufélagið hefur sent frá sér eftirfarandi tilkynningu: "Eigendur, stjórn og stjórnendur Olíufélagsins ehf. harma þátt Olíufélagsins Esso í samráði íslenskra olíufélaga á árum áður og biðjast afsökunar fyrir hönd fyrirtækisins. Unnið hefur verið náið með samkeppnisyfirvöldum til að upplýsa málið og mun fyrirtækið axla fulla ábyrgð gjörða sinna.

Að eigin frumkvæði og í tengslum við niðurstöðu samkeppnisráðs 28. október sl., hefur Olíufélagið ehf sett sér nýjar verklagsreglur, er taka gildi þegar í stað, sem taka m.a. fyrir öll samskipti við önnur olíufélög og starfsmenn þeirra. Þetta hefur þá þýðingu að nú þegar verður hætt samstarfi um samreknar stöðvar og starfsmenn félagsins munu í dag segja sig úr öllum stjórnum þar sem fulltrúar hinna olíufélaganna sitja jafnframt. Auk þess munu viðskiptavinir félagsins verða varir við örari verðbreytingar á eldsneyti en áður.

Framangreint kemur m.a. fram í eftirfarandi:

1. Til að stuðla að betri verðmyndun á markaði munu verðákvarðanir félagsins teknar oftar en áður, eða a.m.k. vikulega.

2. Fulltrúar Olíufélagsins í stjórn Olíudreifingar ehf munu segja sig úr stjórn félagsins og verða utanaðkomandi stjórnarmenn skipaðir í þeirra stað.

3. Olíufélagið mun láta af samvinnu við önnur olíufélög við innkaup á eldsneyti svo fljótt sem auðið er.

4. Olíufélagið hefur ákveðið að selja hlut sinn í Gasfélaginu ehf og beinir því til annarra hluthafa að félagið verði selt sem allra fyrst. Fulltrúi Olíufélagsins í stjórn félagsins mun segja sig úr stjórninni og verður utanaðkomandi aðili tilnefndur í hans stað.

5. Olíufélagið mun vísa ágreiningi um uppskiptingu samrekinna bensínstöðva til gerðardóms. Þar til niðurstaða liggur fyrir mun Olíufélagið eitt og sér reka þær stöðvar sem félagið hefur rekstrarumsjón með í dag og afsala sér tekjum af öðrum stöðvum.

6. Olíufélagið mun sinna þeirri upplýsingaskyldu sem kveðið er á um í úrskurði samkeppnisráðs og undirrita þær yfirlýsingar um upplýsingamiðlun sem um er beðið.

7. Stjórnendum og starfsmönnum er óheimilt að eiga samskipti við stjórnendur og starfsmenn annarra olíufélaga og í því skyni munu fulltrúar félagsins segja sig úr öllum stjórnum þar sem fulltrúar annarra olíufélaga eiga sæti, þ.á.m. stjórn Flutningsjöfnunarsjóðs, og verða utanaðkomandi fulltrúar skipaðir í þeirra stað.