Hagnaður BP olíufélagsins nam 533 milljónum Bandaríkjadala, eða sem nemur rúmum 55 milljörðum íslenskra króna á öðrum ársfjórðungi. Er það mikill viðsnúningur frá því á sama tíma fyrir ári þegar félagið tapaði 2,2 milljörðum dala.

Er þessi árangur þrátt fyrir lágt olíuverð og viðvarandi olíuverð undir 50 dölum á fatið, en félagið segist nú geta rekið sig á núlli við olíuverð í 47 dölum á fatið. Félagið dró úr kostnaði á síðasta ári um 7 milljarða dala, sem nú er að skila árangri segir fjármálastjóri fyrirtækisins Brian Gilvary.

Er markmiðið að félagið geti staðist olíuverð á bilinu 35 til 40 dali, en fyrir nokkrum mánuðum olli félagið fjárfestum vonbrigðum þegar það sagðist þurfa 60 dali á fatið til að standa undir kostnaði. Hlutabréfaverð BP hefur hækkað um 3,02% í dag.