Hæstiréttur hefur dæmt Skeljung, Olíuverslun Íslands og Ker til að greiða Reykjavíkurborg rúmlega 72,7 milljónir króna ásamt dráttarvöxtum frá apríl 2002, auk málskostnaðar upp á 1,2 milljónir króna. Einnig voru félögin þrjú dæmd til að greiða Strætó bs., tæplega 5,9 milljónir króna ásamt dráttarvöxtum frá apríl 2002.

Á árunum 1993, 1996 og 2001 leitaði Reykavíkurborg tilboða vegna kaupa á olíuvörum fyrir fyrirtæki sí,n Strætisvagna Reykjavíkur og Vélamiðstöð Reykjavíkurborgar. Var tilboði Skeljungs tekið í útboðum 1993 og 1996 en tilboði Olíufélagsins í útboði 2001. Samkeppnisstofnun hóf í desember 2001 rannsókn á því hvort Skeljungur, Ker og Olíufélagið hefðu haft ólögmætt samráð í viðskiptum og brotið með því gegn ákvæðum þágildandi samkeppnislag. Til rannsóknar voru meðal annars atriði varðandi tilboðsgerð S, K og O við fyrrnefnd útboð R.

Niðurstaða áfrýjunarnefndar samkeppnismála var sú að olíufélögin þrjú hefðu með aðgerðum sínum haft samráð meðal annars um útboðsverð til Reykjavíkurborgar. Þau hefðu auk þess stýrt sameiginlega viðskiptunum til Skeljungs og síðan skipt á milli sín framlegð af þeim. Hafi þessi hegðun þeirra falið í sér ólögmætt samráð og brotið gegn samkeppnislögum

Bökuðu tjón með háttsemi sinni

Í umræddum málum sem Hæstiréttur dæmi í fyrr í dag  leituðu Reykjavíkurborg og Strætó bs. skaðabóta vegna tjóns, sem þau töldu  sig hafa orðið fyrir vegna ólögmæts samráðs olíufélaganna. Félögin viðurkenndu að útboðið hefði brotið gegn samkeppnislögum en sögðu ósannað að Reykjavíkurborg og Strætó hefur orðið fyrir tjóni.

Hæstiréttur hafnaði aðalkröfu Reykjavíkurborgar þar eð hann taldi forsendur fyrir útreikningi hennar á skaða sínum rangar og að sú skekkja sem væri í reikningunum hefði teljandi áhrif á fjárhæð hennar. Til vara krafðist Reykjavíkurborg að olíufélögin greiddu  þrefaldar þær fjárhæðir sem Skeljungur hefði skuldbundið sig til að greiða Keri og Olíufélaginu á gildistíma samningsins frá 1996 til 2001. Féllst Hæstiréttur á varakröfuna og gerði félögunum að greiða skaðabætur enda hefðu þeir bakað borginni tjón með sameiginlegri háttsemi sinni.