Olíufélögin fjögur, Skeljungur, N1, Olís og Atlantsolía, hafa verið rekin með samfelldum hagnaði undanfarin ár samhliða uppgangi í ferðaþjónustunni. Á þessu ári hefur kórónuveirufaraldurinn og samdráttur í ferðaþjónustunni sem honum hefur fylgt haft töluverð áhrif á afkomu stærstu félaganna.

Skeljungur hagnaðist um 274 milljónir króna á fyrri helmingi ársins miðað við 706 milljónir á sama tímabili fyrir ári samkvæmt uppgjöri sem félagið birti síðasta miðvikudag. Þá tilkynnti Skeljungur um að það hefði keypt 25% hlut í veitingakeðjunum Brauð & Co. og Gló. Félagið hefur lækkað afkomuspá sína fyrir þetta ár úr 3,4 til 3,7 milljörðum króna EBITDA hagnaði í 2,8 til 3,2 milljarða króna EBITDA hagnað vegna heimsfaraldursins.

Ekki allir finna fyrir áhrifum veirufaraldursins

Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Festi og N1, gerir ráð fyrir um 500-700 milljóna króna lækkun á afkomu N1 sökum faraldursins, þó svo að sala eldsneytis í sumar hafi gengið ágætlega.

„Áhrif af fækkun ferðamanna vegna Covid eru nokkuð óljós en við höfum ekki miklar áhyggjur af þessu til langs tíma. Ferðamannastraumurinn í sumar hefur haft mjög jákvæð áhrif á reksturinn, þá sérstaklega úti á landi en við gerum ráð fyrir minni umferð í vetur en hefur verið. Ef horft er til tíu ára verða ferðamennirnir komnir aftur þó svo að ef horft er til tólf mánaða sé þetta vandamál,“ segir Eggert Þór en bensínsala N1 dróst saman um 40,1% á öðrum ársfjórðungi milli ára. Tap félagsins nam 501 milljón króna á fyrri hluta árs.

Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olís, segir félagið hafa orðið fyrir töluverðum áhrifum sökum faraldursins og bætir við að haustið kunni að verða mjög erfitt.

„Það var gríðarlegt áfall þegar faraldurinn skall á. Það var síðan ekki fyrr en í sumar þegar hömlum var farið að létta að við sáum söluna fara að glæðast á nýjan leik. Íslendingar eru að eyða meira en hinn almenni erlendi ferðamaður og tók salan því kipp í júní og júlí. Íslendingar eru samt sem áður ekki að ná að brúa það bil sem erlendir ferðamenn skildu eftir,“ segir Jón.

Sömu sögu er hins vegar ekki að heyra frá Guðrúnu Rögnu Garðarsdóttur, framkvæmdastjóra Atlantsolíu, sem segist ekki hafa fundið fyrir breyttri eftirspurn. „Fækkun erlendra ferðamanna hefur mjög lítil áhrif á rekstur Atlantsolíu. Líkt og við fundum ekki fyrir aukningu í sölu þegar ferðamenn jukust þá er ekki minnkun þegar þeir fara,“ segir Guðrún.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .