Stoðir fengu 110 milljónir króna greiddar í mars síðastliðnum í skaðabætur vegna ólögmæts samráðs olíufélaganna frá 1993 og til loka árs 2001. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að samið hafi verið um bótagreiðslurnar í upphafi þessa árs og upphæðin síðan reidd af hendi í mars.

Um er að ræða hæstu skaðabætur sem greiddar hafa verið vegna ólögmæts samráðs Kers (sem átti áður Olíufélagið), Skeljungs og Olís. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hafa olíufélögin einnig samið við AlcanRioTinto um greiðslu skaðabóta vegna útboða til þess fyrirtækis á samráðsárunum. Sú bótaupphæð er þó mun lægri en í tilfelli Stoða.

Aldrei hefur verið greint frá þessu samkomulagi opinberlega áður. Vert er að taka fram að ekki er víst að öll olíufélögin séu aðilar að hverju máli fyrir sig. Þannig er Ker til að mynda ekki þátttakandi í því að greiða skaðabætur til Stoða þar sem félagið er ekki talið gerandi í þeim hluta samráðsins.

Voru áður Flugleiðir

Flugtak
Flugtak
© Aðrir ljósmyndarar (VB MYND)
Ástæða þess að Stoðir fengu bótagreiðslu er sú að félagið hét Flugleiðir á þeim tíma sem brotin áttu sér stað. Í mars 2005 var nafni Flugleiða breytt í FL Group og starfsemi félagsins víkkuð með þeim hætti að það fór að fjárfesta markvissara í öðrum geirum en flugrekstri. Flugfélagið Icelandair var gert að dótturfélagi, skráð sérstaklega á markað og að lokum selt að öllu leyti út úr FL Group síðla árs 2006.

FL Group breytti síðan nafni sínu í Stoðir sumarið 2008, fór í greiðslustöðvun í október 2008 og í gegnum nauðasamninga sumarið 2009. Júlíus Þorfinnsson, framkvæmdastjóri Stoða, vildi ekkert tjá sig um málið þegar Viðskiptablaðið leitaði eftir því.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag, miðvikudag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.