Héraðsdómur Reykjavíkur felldi í morgun úr gildi ákvörðun áfrýjunarnefndar samkeppnismála um sektargreiðslur vegna olíusamráðsins á árunum 1993 til 2001.

Dómurinn hefur ekki verið birtur á heimasíðu héraðsdóms. Fréttastofa Vísis segir ríkið þurfa að greiða Keri, áður Olíufélaginu Esso, 495 milljónir króna, Skeljungi 450 milljónir og Olís 560 milljónir.

Áfrýjunarnefndin lagði 1,5 milljarða króna sekt á olíufélögin vegna samráðsins í janúar árið 2005 og greiddu þau sektina með fyrirvara um lögmæti hennar. Síðan þá hefur verið tekist á um lögmæti úrskurðarins og málið velkst fram og til baka. Þá hefur málið dregist á langinn þar sem beðið hefur verið nokkurra matsgerða dómskvaddra matsmanna bæði frá olíufélögunum og ríkinu um það hvort og hver hagnaður olíufélaganna hafi verið af samráðinu.

Ekki liggur fyrir hvort málinu verði áfrýjað. Fréttastofa RÚV hafði eftir lögmanni ríkisins að dóminum yrði líklega áfrýjað. Hann átti hins vegar eftir að fara yfir dóminn og sagði ákvörðun tekna að því loknu.