Forstjóri Samkeppniseftirlitsins átti í vikunni fund með FÍB um samkeppni olíufélaganna, verðlagningu þeirra og verðþróun en fundurinn var haldinn að beiðni FÍB sem í bréfi til eftirlitsins lýsti áhyggjum af þróuninni á markaðnum. Þetta kemur fram í forsíðufrétt Morgunblaðsins í dag. Þar segir að FÍB telji teikn á lofti um að skortur sé á samkeppni og ástæða sé til að kanna hvort um samráð sé að ræða, verðmunur milli félaga sé orðinn lítill sem enginn. Eldsneytisverð hafi hækkað um 10% frá áramótum og um 4% frá síðustu verðbólgumælingu Hagstofunnar. "Við höfum fylgst og munum fylgjast vel með því hvernig þessi markaður þróast, og ekkert ólíklegt að við tökum upp einhverja rannsókn á næstunni, án þess að það liggi fyrir núna," segir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins við Morgunblaðið.