Árið 2019 var fyrsta heila rekstrarárið eftir samruna Haga og Olís, og Festis og N1. Samanlagður hagnaður olíufélaganna nam yfir 2,7 milljörðum króna í fyrra, framlegðin nam yfir 27 milljörðum, og tekjurnar 133 milljörðum. Samanlagðar heildareignir námu tæpum 80 milljörðum og samanlagt eigið fé yfir 33 milljörðum.

Tölurnar eru ekki samanburðarhæfar milli ára, þar sem sameiningarnar tóku báðar gildi árið 2018, og rekstur N1 var færður milli félaga. Sé N1 tekið út fyrir sviga stóðu samanlagðar tekjur hinna þriggja hins vegar svo til í stað, og framlegð var nánast sú sama upp á krónu, 95 milljarðar og 17,4 milljarðar.

Hagnaður féll hins vegar um tæp 12% úr rúmum 2,8 milljörðum í tæpa 2,5, og jafnvel að viðbættum hagnaði N1 var samanlagður hagnaður olíufélaganna lægri í fyrra – rúmir 2,7 milljarðar – en árið áður.

Skeljungur trónir á toppnum með yfir 50 milljarða veltu, sem jókst um 7,3% milli ára. Framlegð jókst um 11,4%, en þrátt fyrir það dróst hagnaður saman um 10,4%. Vegur þar þyngst yfirtaka félagsins á Basko undir lok árs.

Velta N1 var næstmest á árinu, og framlegðin sú mesta. Þrátt fyrir það hagnaðist félagið minnst meðal félaganna fjögurra, en leiða má líkur að því að kostnaður vegna samrunans við Festi hafi þar spilað inn í.

Tekjur Olís drógust saman um 10,7% milli ára, framlegðin um 13,6% og hagnaðurinn um 23,3%. Meðal skilyrða Samkeppniseftirlitsins fyrir samrunanum við Haga var að félagið seldi tvær stöðvar sínar.

Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins sem kom út í morgun og unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér .