*

mánudagur, 25. janúar 2021
Innlent 12. apríl 2017 15:27

Olíuframleiðsla OPEC dregst saman

Á sama tíma og olíuframleiðsla OPEC ríkjanna minnkaði í mars frá fyrri mánuði eykst framleiðsla annarra ríkja.

Ritstjórn
epa

Olíuframleiðsla í heiminum dróst saman í marsmánuði, og þakkar OPEC samtökin samningi sínum um takmörkun á framleiðslu að því er fram kemur í frétt AFP.

Tilraunir samtakanna til að takmarka framleiðslu eru þó undir þrýstingi frá bandarískum fyrirtækjum sem halda ekkert aftur af framleiðslu sinni með hækkandi olíuverði.

Féll framleiðslan á milli mánaða um 230 þúsund olíuföt að sögn OPEC, og stóð heildarframleiðslan í mars í 98,82 milljón olíufötum á dag.

OPEC með þriðjung framleiðslu

Aðildarríki OPEC samtakanna standa undir um þriðjungi af olíuframleiðslu í heiminum en framleiðsla ríkjanna dróst saman um 153 þúsund föt á dag niður í 31,93 milljónir fata á dag að því er fram kemur í skýrslu samtakanna.

Þar með eru aðildarríkin komin niður fyrir markmið samnings um framleiðslutakmarkanir sem samtökin náði við nokkur ríki utan samtakanna eins og Rússlands. 

Olíuverð hækkað á ný

Samningurinn sem tók gildi 1. janúar síðastliðinn á að gilda til að byrja með í sex mánuði en hann hefur náð því fram að olíuverð hefur náð sér nokkuð á strik á ný eftir að hafa verið lágt í nokkurn tíma.

En á sama tíma virðist framleiðsla landa utan OPEC samtakanna hafa hækkað á ný eftir að hafa lækkað niður í 57,32 milljón föt á dag á síðasta ári. 

Virðist framleiðsluaukningin nema um 580 þúsund fötum á dag, eða upp í 57,89 milljón föt á dag. Búist er við því að samningurinn verði framlengdur þegar olíuframleiðsluríkin hittast á ný á fundi sínum í maí.