OPEC ríkin ætla að halda olíuframleiðslu sinni óbreyttri en getgátur hafa verið uppi um að ríkin muni hugsanlega auka framleiðslu sína til að lækka heimsmarkaðsverð á olíu.

Fulltrúar OPEC ríkjanna hittust á fundi í Vínarborg í morgun og munu funda út vikuna.

Chakib Khelil, forseti samtakanna sagði í fjölmiðlum í gær að hann teldi óþarft að auka framleiðsluna þar sem olíuverð væri ekki að hækka vegna eftirspurnar.

Undir þetta tók Ali al-Naimi, olíumálaráðherra Saudi-Arabíu í dag og sagði að framboð og eftirspurn væru í réttum hlutföllum.

Fyrir fundinn sögðu olíumálaráðherrar bæði Írans og Venesúela að ekki kæmi til greina að auka framleiðslu en OPEC ríkin 30 framleiða um 29,67 milljón tunnur á dag.