Mörg af stærstu olíufyrirtækjum heims eru í rekstrarvanda vegna lækkaðs olíuverðs. Tekjur olíufyrirtækja hafa lækkað mikið á síðastliðnu ári vegna lækkandi olíuverðs, en nú eru þau farin að eiga við lausafjárskort og eiga í erfileikum með að fjárfesta, greiða kostnað við framleiðslu og borga út arð. Wall Street Journal greinir frá.

Eyðsla og fjárfestingar stærstu olíufyrirtækjanna, Shell, BP, Exxon Mobil og Chevron á fyrri helmingi 2015 voru um 20 milljörðum dala umfram tekjur samkvæmt heimildum WSJ. Þessi mikli eyðsluhalli er til staðar þrátt fyrir mikla hagræðingu og seinkun fjárfestinga, en talið er að félögin hafi skorið niður útgjöld um 30 milljarða dala, eða um 3.859 milljarða króna.

Talið er að seinkun fjárfestinga í olíuiðnaðum geti haft þau áhrif að erfitt verði að anna eftirspurn eftir olíu í framtíðinni, en langan tíma gæti tekið að auka við framleiðsluna aftur.

Sérfræðingar gera ráð fyrir því að fyrirtækin muni greina frá mikilli lækkun á tekjum þegar þau greina frá árshlutareikningum síðar í vikunni. Ástæður þess eru eins og áður sagði lækkun olíuverðs, en verð á Brent hráolíu er nú um 50 dalir á fatið.