BP, Shell, Exxon Mobil, Total, Petronas og CNOOC í Kína eru á meðal þeirra 35 fyrirtækja sem stjórnvöld í Írak hafa gefið leyfi til að sækja um samninga fyrir olíu- og gasvinnslu í landinu.

Alls sóttu 120 fyrirtæki um leyfi til að sækja um samninga við írösk yfirvöld og hefur olíumálaráðuneyti landsins valið 35 fyrirtæki úr þeim umsóknum. Á listanum yfir fyrrnefnd 35 fyrirtæki má einnig finna Lukoil í Rússlandi og Statoil í Noregi.

Þau fyrirtæki sem starfað hafa með Kúrdum í Norður Írak er sjálfkrafa hent út af listanum segir í frétt BBC.

Olíuútflutningur telur um það bil 85% af þjóðartekjum Íraks en ekki hefur verið hægt að vinna olíu í mörg ár vegna viðskiptabanns, stríðs og skemmdarverka á olíuverksmiðjum að því er kemur fram á fréttavef BBC.

Þá kemur fram í frétt BBC um málið að útflutningur á olíu er nú um 2,3 milljón tunnur á dag og hefur aldrei verið meiri þökk sé auknu öryggi en bæði herlið Bandaríkjanna sem og her Íraka hefur lagt aukna áherslu á það síðustu vikur að vernda olíuleiðslur og vinnusvæði fyrir olíu fyrir stanslausum árásum hryðjuverkamanna.