Brasilíska lögreglan hefur yfirheyrt gjaldkera Verkamannaflokksins vegna hneykslismáls tengdu ríkisolíufyrirtækinu Petrobras. Gjaldkeri Verkamannaflokksins, sem fer með ríkisstjórn landsins núna, var ekki handtekinn, en skýrsla var tekin af honum. Í gær sagði forstjóri Petrobras, Maria das Gracas Silva Foster, af sér.

Lögreglan fullyrðir að fyrirtæki hafi borgað yfirverð fyrir samninga við Petrobras og féð hafi runnið í gegnum fyrirtækið til Verkamannaflokksins og aðila tengda flokknum.

Samkvæmt frétt BBC hefur lögreglan alls fengið 62 heimildir til húsleita og handtaka í tengslum við rannsókn málsins.