Sveitarstjórnarmenn á Norðausturlandi sjá fyrir sér stórfellda uppbyggingu er þar á meðal nefnt að Finnafjörður geti verið góður staður fyrir stór olíuskip. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Halldór Jóhannsson, talsmaður Huang Nubo, hefur gert frumdrög að skipulagi sem meðal annars felur í sér stórskipahöfn í Finnafirði, stórt svæði við höfnina fyrir iðnað og þar sem til greina kemur að hafa olíuhreinsunarstöð. Á Þórshöfn er litið til þess að flugvöllurinn verði stækkaður í tvær langar flugbrautir þannig að hægt sé að sinna innanlands og millilandaflugi auk þess sem góðar aðstæður séu fyrir þyrluflugvöll. Þá er Vopnafjörður nefndur sem ákjósanleg staðsetning fyrir fyrsta stig olíu- og gasvinnslu fyrir Drekasvæðið.

Þess má geta að landeigendur á Norðausturlandi eru í málaferlum við Langanesbyggð vegna deilna um eignarnám. uðmundur Vilhjálmsson, eigandi jarðarinnar Syðra-Lóns, í nágrenni Þórshafnar, segir meðal annars að eins og staðan sé í dag munu landeigendur á svæðinu ekki vilja láta land sitt undir stóriðjustarfsemi.