Tap franska flugfélagsins Air France-KLM á fyrsta ársfjórðungi þessa árs nam 358 milljónum evra, sem er nærri það sama og tap félagsins á sama tímabili í fyrra. Tekjur félagsins jukust þó frá fyrra ári um 6% og námu 5,6 milljörðum evra. BBC greinir frá afkomu flugfélagsins.

Hærra eldsneytisverð og minni vöruflutningar skýra að mestu laka afkomu félagsins. Til viðbótar jókst launakostnaður frá árinu áður. Félagið tilkynnti í fyrra um áætlanir sem gera ráð fyrir 10% samdrætti í kostnaði. Að sögn forsvarsmanna þess munu áhrif þess gæta á öðrum ársfjórðungi 2012.