Úr viðtali við Árna Páll Árnason, sem birtist í seinasta tölublaði Viðskiptablaðsins.

Hver er stefna Samfylkingarinnar varðandi olíuleit á Drekasvæðinu?

„Á síðasta landsfundi mörkuðum við þá stefnu að við viljum vinda ofan af þeirri þróun sem hefur orðið með útgáfu leyfanna.“

Var það stefnubreyting?

„Já. Hún ræðst auðvitað af því að meira er nú vitað um þann vanda sem að okkur steðjar í loftslagsmálum. Svo verðum við líka að vera raunsæ, og það eru ekki miklar líkur á því miðað við tækniþróun og efnahagsaðstæður eins og þær verða fyrirsjáanlega á næstu áratugum að þá verði olía í nýtanlegu magni finnanleg hvort eð er á þessu svæði. Ef við síðan ætlum að forðast þær hörmungar sem við okkur blasir með hlýnun jarðar þá reynir á að við nýtum ekki allt það jarðefnaeldsneyti sem mögulegt er að nýta á jörðinni.“

Jafnvel þó að það myndi reynast hagkvæmt, að minnsta kosti til skemmri tíma?

„Það eru engar líkur á að það geti verið hagkvæmt til skemmri tíma, vegna þess hversu gríðarlega dýrt, flókið og erfitt það yrði að nálgast það sem mögulega gæti verið í einhverju magni á Drekasvæðinu.“

Er þá ekki feigðarflan fyrir þessi fyrirtæki að leita að olíu þarna?

„Þau auðvitað verða að meta það út frá sínum hagnaðarforsendum. En út frá þeim efnahagslegu staðreyndum sem maður sér í dag, jafnt olíuverði, hlýnun jarðar og gríðarlegra hraðri og ánægjulegri þróun annarra orkugjafa er ólíklegt það er að það verði möguleiki að nytja þessar auðlindir eftir marga áratugi. Þegar að því kemur eru allar líkur á því að vinnslu jarðefnaeldsneytis hafi einfaldlega verið hætt, hvort tveggja vegna þess að eitthvað nýtt hafi tekið við og að þegar þar að kemur eru allar líkur á að loftslagsbreytingarnar muni hafa haft mjög alvarleg áhrif því þá verður væntanlega búið að nytja gríðarlegt magn jarðefnaeldsneytis sem er auðnýtanlegra en það sem er á Drekasvæðinu.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .