Rannsóknir kanadíska félagsins Sterling Resources benda til að gaslindir sem fundust nýverið á sunnanverðu Breagh svæðinu í Norðursjó sé mesti gasfundur á botni Norðursjávar í mörg ár. Eru þetta taldar afar góðar fréttir fyrir handahafa olíuleitarréttinda á Breagh svæðinu en þar á færeyska olíuleitarfélagið Faroe Petroleum 10% hlut.

Fyrir Faroe Petroleum eru þetta sérlega góð tíðindi, en félagið hefur þurft að sætta sig við fjölda árangurslausra borana á liðnum árum. Félagið á hlutdeild í 45 rannsóknarleyfum við Færeyjar, á bresku yfirráðasvæði við Settlandseyjar, í Norðursjó og í Noregshafi.

Graham Stewart, forstjóri Faroe Petroleum er ánægður með þessi tíðindi. „Það er ánægjulegt að geta staðfest að öll okkar áform sem við settum varðandi boranir á Breagh svæðinu 2008 hafa náðst.”

Faroe Petroleum er eignarhaldsfélag sem skráð er á Alternative Investment Market (AIM) hlutabréfamarkaðnum í London, en dótturfélag þess er Føroyar Kolvetni P/F. í Færeyjum. Stærsti einstaki hluthafinn er Dana Petroleum plc í Bretlandi með 27,53% hlut.