Fyrirtækin, sem sótt hafa um leyfi til olíuleitar munu sjálf bera allan kostnað af leitinni sem og vinnslu olíunnar þegar að því kemur. Er þetta ólíkt því sem gerist í Noregi þar sem ríkið endurgreiðir stóran hluta olíuleitarkostnaðar. „Á móti kemur að norska ríkið tekur líka til sín mjög stóran hluta hagnaðarins sem er af olíuvinnslunni. Eins og kerfið hefur verið sett upp hér tekur íslenska ríkið til sín umtalsverðan hluta hagnaðar,“ segir Gunnlaugur Jónsson, stjórnarformaður Kolefna ehf., eins umsækjendanna.

„Fyrst í formi 5% gjalds sem lagt er á verðmæti allrar olíu sem dælt er upp, burtséð frá því hvort hagnaður er af rekstri viðkomandi fyrirtækis eða ekki. Það er því t.d. hugsanlegt að meira en allur hagnaður sé greiddur í skatt. Í öðru lagi er lagður á sérstakur skattur, sem er reiknaður út frá hlutfalli veltu og hagnaðar. Því meiri sem hagnaður er sem hlutfall af veltu því hærri er þessi skattur. Í þriðja lagi greiða olíuvinnslufyrirtækin venjulegan tekjuskatt eins og öll önnur fyrirtæki Íslandi.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf útgáfu af blaðinu undir liðnum Tölublöð hér að ofan.