Neytendasamtökin halda opinn fund um ólögmætt verðsamráð olíufélaganna og afleiðingar þess fyrir íslenskt efnahagslíf og fyrir neytendur. Fundurinn verður haldinn þriðjudagskvöldið 7. desember kl. 20:00 á Grand hótel Reykjavík við Sigtún. Meðal þeirra sem flytja framsögu á fundinum verður Ólafur Darri Andrason, hagfræðingur ASÍ, en hann mun fjalla um í hverju hið ólöglega samráð olíufélaganna fólst og reyna að draga fram hver áhrifin voru á almenning.

Dagskrá fundarins verður þannig að fyrsta erindið heitir: "Í hverju fólst ólögmætt samráð olíufélaganna og hver voru áhrif þess á almenning?"

Ólafur Darri Andrason, hagfræðingur hjá ASÍ, fer í stuttu máli yfir í hverju samráð olíufélaganna fólst og hvert var tjón neytenda af þess völdum, bæði beint og óbeint.

Eiga olíufurstarnir að bera ábyrgð á verðsamráðinu og hvernig hindrum við slík brot?

Jón Magnússon, hæstaréttarlögmaður, fer yfir ábyrgð stjórnenda olíufélaganna og gerir grein fyrir hvernig breyta verður ákvæðum samkeppnislaga til að fæla fyrirtæki frá verðsamráði.

Er hægt að sækja bætur til þeirra sem smurðu á reikninginn?

Eggert B. Ólafsson, héraðsdómslögmaður, veltir fyrir sér möguleikum almennra borgara til að sækja bætur vegna tjóns sem olíufélögin hafa valdið þeim með ólöglegu samráði.