Olíuríki heimsins há nú kapphlaup við tímann til að ná samkomulagi áður en markaðir opna á nýjan leik. Bloomberg greinir frá.

Verð á olíutunnunni hefur hrunið það sem af er ári en í upphafi þess stóð það í tæplega 65 dollurum á tunnuna. Síðan þá hefur leiðin legið niður á við og við lokun markaða fyrir helgi tunnan í 23 dollurum. Lágpunkti náði hún í byrjum apríl þegar hún fór nánast niður fyrir 20 dollara.

„Öll heimsbyggðin þarfnast þess að samkomulag náist,“ sagði Dimitry Peskov, talsmaður rússneska forsetans Vladimir Pútín, í dag.

Eftirspurn eftir olíu hefur hrunið í kjölfar ferðabanna sem fylgja veirufaraldrinum. Afleiðingarnar ógna efnahag olíuríkja og gera þeim erfiðara um vik að grípa til nauðsynlegra aðgerða til að bregðast við öðrum efnahagsafleiðindum Covid-19.

Á fimmtudag náðu olíuríki heimsins samkomulagi að draga úr framleiðslu um 10 milljón tunnur á dag en það samsvarar um tíu prósenta af framboði heimsins. Það samkomulag batt enda á verðstríð Rússa og Sádi-Arabíu en hefur ekki enn fengið brautargengi Mexíkóa. Sú staðreynd ógnar því að samkomulagið nái fram að ganga.

Forseti Mexíkó, Andres Manuel Lopez Obrador, hefur lofað landsmönnum öllu fögru hvað olíuiðnaðinn varðar. Þau loforð gera honum erfiðara um vik að fallast á að draga seglin saman.

Fyrrgreint samkomulag þýðir að Mexíkó þarf að framleiða 400 þúsund tunnum minna dag hvern en áður. Það líkar Obrador illa og segir að hámarks samdráttur geti verið 100 þúsund tunnur. Með því væri samkomulagið fallið. Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur reynt að miðla málum milli Mexíkó og Sáda en hingað til án árangurs. Tillaga Trump felur í sér að Bandaríkin og Mexíkó verði talin sem eitt svæði en Sádar sætta sig ekki við það. Eitt verði að ganga yfir alla.

Þó að samkomulag náist um að draga úr framleiðslu um 10% er óvíst að það dugi til að bregðast við stöðunni.