Samkeppnisyfirvöld í Evrópu rannsaka nú það hvort stór evrópsk olíufélög, þar á meðal Royal Dutch Shell, BP og Statoil, hafi með ólögmætum hætti haft áhrif á heimsmarkaðsverð á olíu. Í frétt Financial Times segir að gerðar hafi verið húsleitir á vegum framkvæmdastjórnar Evrópusambandins í skrifstofum nokkurra fyrirtækja í tveimur Evrópuríkjum, en framkvæmdastjórnin vildi ekki gefa upp hvaða fyrirtæki eiga í hlut.

Samkvæmt frétt FT kvartaði franska olíufélagið Total yfir því að opinbert olíuverð í ákveðnum leiðandi vísitölum væri ekki í samræmi við þann raunveruleika sem það upplifði í sínum viðskiptum. Þykir málið um sumt svipað Libor hneykslinu, þegar í ljós kom að bankar höfðu haft samráð um að hnika til Libor viðmiðunarvöxtunum sér í hag.

Viðmiðunarverðin, sem m.a. byggja á tölum frá fyrirtækinu Platts, byggja oft meira á sölu- og kauptilboðum á markaði en á á því verði sem viðskipti eru gerð á. Þetta getur skipt gríðarlegu fjárhagslegu máli því margir samningar byggja á þessum viðmiðunarverðum.