Markaðshlutdeild N1 á innlenda eldsneytismarkaðinum hefur aukist og nam 43,09% á síðasta ári, samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins. Árið á undan var hlutdeild N1 41,50%.  Þetta nær yfir allar tegundir af jarðefnaeldsneyti og inniheldur líka sölu til erlendra skipa og flugvéla.

Að sögn Hermanns Guðmundssonar, forstjóra N1, eru sveiflur aðallega vegna samdráttar í flugi annarra en Icelandair. Skeljungur var með 28,49% hlutdeild á síðasta ári sem er nánast óbreytt á milli ára (félagið var með 28,20% árið 2007). Olíuverslun Íslands hf. var með 22,94% sem er samdráttur þar sem félagið var með 26% hlutdeild árið á undan. Atlantsolía hf. bætir hlutfallslega mestu við sig, fer úr 4,30% hlutdeild í 5,48%.