Útflutningstekjur Rússlands af olíu og jarðgasi á fyrstu hundrað dögum stríðsins í Úkraínu, eða frá 24. febrúar til 3. júní, námu 97 milljörðum dala samkvæmt skýrslu rannsóknastofnunarinnar CREA. Aðildarríki Evrópusambandsins fluttu inn olíu og gas frá Rússlandi fyrir 59 milljarða dala á tímabilinu og vógu því 61% af útflutningstekjum Rússa í þessum vöruflokki. BBC greinir frá.

Í lok síðasta mánaðar samþykkti Evrópusambandið að banna meirihluta af innflutningi á rússneskri olíu til að draga úr tekjum Rússlands vegna stríðsins. CREA hrósaði innflutningsbanni ESB og segir að aðgerðirnar gætu haft veruleg áhrif en varaði þó við smugum á banninu.

Sjá einnig: Stóraukin sala á rússneskri olíu til Evrópu

Í skýrslunni kemur fram að útflutningstekjur Rússlands hafa lækkað frá því í mars þegar orkusala Rússa var vel yfir 1 milljarð dala á dag en séu þó enn miklar. CREA áætlar að Rússar hafi varið um 876 milljónum dala daglega í stríðið í Úkraínu. Útflutningstekjur af olíu og jarðgasi náðu því að dekka stríðsrekstur Rússa á fyrstu hundrað dögunum frá því að innrásin í Úkraínu hófst.