Forsvarsmenn olíusjóðs Katar voru tilbúnir til að kaupa hlut í Kaupþingi fyrir 399 krónur á hlut árið 2007. Gengi hlutabréfa bankans var helmingi hærra á sama tíma. Fréttavefur Morgunblaðsins, mbl.is , hefur upp úr skýrslutökum Hreiðars Más Sigurðssonar, fyrrverandi bankastjóra Kaupþings í Al Thani-málinu svokallaða í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag, að viðræður hafi farið fram við fjármálaráðherra Katar um aðkomu að Kaupþingi. Þær hafi ekki leitt til niðurstöðu og því hafist viðræður við olíusjóðinn. Þær viðræður runnu svo út í sandinn þar sem stjórnendur sjóðsins kröfðust verulegs afsláttar af kaupverðinu.

Hreiðar sagði afslátt sem þann sem forsvarsmenn olíusjóðsins kröfðust ekki óþekktan þegar nýir fjárfestar kaupi hlut í fjármálafyrirtækið. Afslátturinn hafi hins vegar þótt of mikill og því ekkert orðið úr viðskiptunum.

Í stað þessa keypti Mohammad Al Thani 5% hlut í kaupþingi seint í september árið 2008 fyrir 200 milljónir dala. Kaupin voru fjármögnuð af Kaupþingi en Al Thani lagði fram sjálfskuldarábyrgð upp á 50 milljónir dala.