Norski olíusjóðurinn er áhyggjufullur yfir þróun mála á fjármálamörkuðum í Evrópu og hefur minnkað stöðu sína verulega bæði hvað varðar ríkisskuldabréf og skuldabréf banka á evrusvæðinu. Í frétt E24 um málið kemur fram að eignir sjóðsins sem snúa að evrópskum bönkum hafi farið úr 220 milljörðum norskra króna í 130 milljarða á fyrsta ársfjórðungi 2012. Það sem eftir stendur er að stórum hluta eignir sem tryggðar eru með veðum í íbúðalánum sem sjóðurinn telur traustar.

Á fyrstu þremur mánuðum ársins hefur sjóðurinn einnig losað sig við öll írsk og portúgölsk ríkisskuldabréf auk þess sem sjóðurinn hefur minnkað verulega við eignir sínar í spænskum og ítölskum ríkisskuldabréfum.