Norski olíusjóðurinn gæti tapað 420 milljörðum dollara eða um 42 þúsund milljörðum króna, um 40% af stærð sjóðsins í næstu stóru niðursveiflu á verðbréfamörkuðum. Þetta kemur fram í nýrri áhættugreiningu norska olíusjóðsins sem Financial Times greinir frá.

Svo skörp lækkun á verðmæti sjóðsins gæti átt sér stað með hruni hlutabréfamarkaða og styrkingu á gengi norsku krónunnar, en sjóðurinn fjárfestir einungis utan Noregs.

Yngve Slyngstad, forstjóri olíusjóðsins, segir að Norðmenn þurfi að ákveða hvernig þeir muni bregðast við komi slíkur atburður upp.

Töluverð umræða hefur verið í Noregi hvort að sjóðurinn geti greitt jafn mikið úr sjóðnum í næstu stóru kreppu, en 17-18% af útgjöldum norska ríkisins verða fjármögnuð í gegnum olíusjóðinn í ár.

Nú er viðmið norska ríkisins að Norðemnn megi taka úr sjóðnum 3% af stærð hans, sem er álíka og vænt langtímaávöxtun sjóðsins. Minnki sjóðurinn verulega í niðursveiflu þurfi Norðmenn annað hvort að taka minna fé úr sjóðnum eða hækka 3% regluna verulega.

Ávöxtun olíusjóðurinn var neikvæð um 23% árið 2008. Í kjölfarið var fjárfestingastefnu sjóðins breytt. Olíusjóðurinn náði þó fljótt vopnum sínum enda var ávöxtun sjóðsins árið 2009 jákvæð um 26%.  Nú er olíusjóðurinn hins vegar orðinn fjórfalt stærri en árið 2008 og því enn meira undir.