Er þróunin á olíumarkaði þessa dagana hluti af efnahagslegum átökum Bandaríkjanna og Sádí-Arabíu við Rússland og Íran? Þessari spurningu veltir dálkahöfundurinn Thomas L. Friedman upp í nýlegum dálki í New York Times.

Bendir hann á að ástandið í fjórum olíuframleiðsluríkjum, Írak, Líbýu, Nígeríu og Sýrlandi sé mjög óstöðugt svo ekki sé meira sagt og að Íran sé mjög heft vegna viðskiptaþvingana. Fyrir tíu árum hefðu fréttir sem þessar keyrt heimsmarkaðsverð á olíu upp, en í dag sé hið gagnstæða að gerast. Olíuverð hafi verið að lækka svo vikum skiptir og sé nú um 88 dali fatið, eftir að hafa verið mjög lengi í kringum 105-110 dali.

Verðlækkunin er til komin annars vegar vegna þess að hagvöxtur í Evrópu og Kína er undir væntingum og hins vegar vegna þess að olíuframleiðsla í Bandaríkjunum hefur stóraukist. Í stað þess að draga úr framleiðslu sinni til að halda verðinu uppi hafa Sádí-Arabar hins vegar viðhaldið framleiðslustiginu með þeim afleiðingum að verð hefur lækkað.

Vísar Friedman í grein, sem birtist í rússneska dagblaðinu Pravda í apríl, þar sem Barack Obama Bandaríkjaforseti er sagður vilja eyðileggja rússneska hagkerfið með aðstoð S-Arabíu. Er þar rifjað upp að árið 1985 jók S-Arabía olíuframleiðslu sína úr tveimur milljónum fata á dag í tíu milljónir sem leiddi til þess að olíuverð lækkaði úr 32 dölum á fatið í 10 dali. Rússnesk olía fór jafnvel á enn lægra verði, eða um sex dali á fatið. Friedman segir að S-Arabía hafi ekki tapað á þessu, enda fimmfaldaðist framleiðslan á meðan verðið lækkaði minna en sem því nam. Rússneska hagkerfið hafi hins vegar ekki þolað þetta högg og minnkandi útflutningstekjur hafi átt sinn hlut í því að Sovétríkin féllu nokkrum árum síðar.

Friedman gengur ekki svo langt að segja að um samantekin ráð hjá Bandaríkjamönnum og S-Aröbum sé að ræða, en segir þó að verðlækkunin henti þessum ríkjum betur en Rússlandi og Íran. Útflutningstekjur af olíu séu um 60% af tekjum íranska ríkisins og um helmingur af tekjum þess rússneska.