Á hádegi í New York (kl. 17 á íslenskum tíma) kostaði olíutunnan 100 bandaríkjadali og segir Bloomberg fréttaveitan að olía aldrei verið jafn dýr síðan byrjað var að versla með hana á mörkuðum líkt og nú þekkist. Hækkunin nam 4,2%.

Eins og vb.is greindi frá fyrr í dag má rekja hækkunina fyrst og fremst til óeirða í Nígeríu en talið er að framleiðsla þar í landi kunni að minnka næstu misseri vegna óeirða. Auk þess hafa vísitölur verið að lækka í Bandaríkjunum í dag og kann það einnig að hafa áhrif á olíuverð. Að sama skapi hefur bandaríkjadalur lækkað gagnvart evru og hefur það einnig áhrif á hækkandi olíuverð.

Nígería er stærsti olíuframleiðandinn í Afríku. Þar hafa skæruliðar ráðist á og skemmt olíulindir og rænt erlendum verkamönnum. Í Venesúela hefur framleiðsla minnkað en árið 2002 voru að meðaltali framleiddar um 3 milljónir tunna á dag en eru aðeins um 2,4 milljónir í dag að því er Bloomberg greinir frá og vísar í sína eigin útreikninga.