Olíuframleiðendur innan Opec hafa gefið út spá sem bendir til þess að eftirspurn eftir olíu muni fara minnkandi á næsta ári. Þá sýnir ný bandarísk skýrsla að olíubirgðir í Bandaríkjunum hafa aukist meira en búist hafði verið við. Þetta hefur valdið mikilli lækkun á heimsmarkaðsverði á olíu, en verðið á tunnu af Brent Norðursjávarolíu lækkaði um 3,61% í gær við tíðindin og stóð í 64,41 dölum í lok dagsins. BBC News greinir frá þessu.

Tunnan hefur lækkað í verði um 43% síðan um miðjan júní á þessu ári og fátt sem bendir til mikilla hækkana á næstunni. Sérfræðingar telja jafnvel að botninum hafi enn ekki verið náð og verðið eigi eftir að lækka enn frekar. Einhverjir halda því til að mynda fram að langtímaverð á olíu eigi eftir að standa á milli 60 til 70 dala sem þýði að verðið gæti lækkað nokkru meira áður en það nær jafnvægi aftur.