Forseti samtaka olíuframleiðsluríkja (OPEC), Chakib Khelil, sagðist í gær búast við því að olíutunnan myndi kosta 170 dollara áður en árið er liðið.

Ástæður þess segir hann veikan dollara og pólitískan þrýsting á ýmis olíuframleiðsluríki, til að mynda Íran. Bloomberg segir frá þessu í dag.

„Olíuverð mun ná 170 dollurum á tunnu þar sem eftirspurn er að aukast á Bandaríkjunum á sumartímanum og veiking dollarans gagnvart evru heldur áfram,“ sagði Khelil, sem er jafnframt olíumálaráðherra Alsír.

Olíuverð hefur nú meira en tvöfaldast á einu ári. Á einum timapunkti í gær fór ein olíutunna á 142,99 dollara í kauphöllinni í New York.

Ráðherrar OPEC-landanna halda því jafnan fram að framboð olíu sé nægt. Sádi-Arabía hefur þó tilkynnt að framleiðsla verði aukin um 200.000 tunnur á dag í næsta mánuði.

Khelil segir verðhækkanir á olíu ekki tilkomnar vegna skorts. „Meira en nóg af olíu er fyrir hendi til að mæta alþjóðlegri eftirspurn,“ segir hann. „Ákvarðanir bandarískra og evrópskra peningamálayfirvalda hafa orsakað verðlækkun dollarans gagnvart evru, sem hefur ýtt verðum upp.“