Eftir talsverðar verðhækkanir á olíumörkuðum í síðustu viku hefur olíuverð hopað nokkuð síðastliðna tvo daga. Hefur verðið þannig lækkað um fimm Bandaríkjadali á tunnuna frá því það toppaði í rúmum 90 dollurum í lok síðustu viku. Ástæður lækkunarinnar eru taldar m.a. væntingar um hægari umsvif efnahagslífs í heiminum en áður hafði verið reiknað með og minni eftirspurn eftir olíu í kjölfarið. Þá hefur styrking dollars gagnvart evru einnig sitt að segja. Greint var frá þessu í Hálf fimm fréttum Kaupþings.