Verð á olíu náði sögulegu hámarki í dag þegar verð á tunnunni fór í 44,3 dollara á markaði í Bandaríkjunum.

Áhyggjur af verðþróun á olíu eru orðnar talsverðar og hefur til að mynda fjármálaráðherra Þýskalands, Hans Eichel, sagt ástandið geta leitt til almennrar dvínunar á hagvexti.

Verð á olíu hefur hækkað um meira en þriðjung frá síðustu áramótum þar sem vaxandi eftirspurn, einkum frá Kína, hefur leitt til þess að allar truflanir á framleiðslu hafa leitt til mikilla hækkana.

Sumir sérfræðingar halda því fram að verðið geti farið yfir 50 dollara tunnan með tilheyrandi slæmum afleiðingum fyrir efnahag heimsins.