Olíuverð féll í dag í kjölfar tíðinda frá Saudi-Arabíu þess efnis að unnið væri að því að auka framleiðslu. Verðið á olíutunnunni féll á tímabili niður í 100,02 dollara á tunnu, en fór síðan aftur upp í 100,82 dollara. Nam þá lækkunin 1,02 dollurum á tunnu, en BBC segir frá þessu í dag.

Heimsmarkaðsverð á hrávörum, og þar er olía engin undanteking, hefur verið viðkvæmt fyrir gengisflökti dollarans á undanförnum vikum. Styrking dollarans í dag hefur því einnig sett þrýsting á olíuverð niður á við.

Yfirvöld í Saudi-Arabíu hafa verið undir talsverðum þrýstingi frá bandarískum yfirvöldum um að að hjálpa til við að hægja á olíuverðshækkunum. Á laugardag síðastliðinn hitti Dick Cheney, varaforseti Bandaríkjanna, yfirvöld í Riyadh til að ræða olíuverð.

Sérfræðingar hafa sagt að spákaupmenn, sem hafa haft mikil áhrif á olíuverð á síðustu misserum, séu nú að nota tækifærið til að taka hagnað af verðhækkunum síðustu mánaða. Slíkt hafi einnig lækkandi áhrif á verðið.