Olíuverð gæti farið upp í 150 bandaríkjadali á tunnu, fyrir 4. júlí.

Þetta segir fjárfestingabankinn Morgan Stanley, sem telur í nýlegri skýrslu að markaðurinn muni ná nýjum hæðum.

Frá þessu er greint á fréttavef Bloomberg.

Tunnan af hráolíu hækkaði um 10,75 bandaríkjadali í dag, auk þess sem dalurinn hefur veikst gangvart evru.

Hækkun olíuverðs er rakin til atvinnuleysis í Bandaríkjunum sem nú hefur náð 5,5 af hundraði.

Einnig bætir ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs ekki úr skák, en aðstoðarforsætisráðherra Ísraels lét það út úr sér að árás á Íran gæti verið nauðsynlegt og hafa þau orð reynst dýr.