Hráolíuverð á heimsmarkaði féll í morgun á markaði NYMEX (New York Mercantile Exchange) um rúmlega einn dollar vegna ótta við að eftirspurn muni minnka enn frekar en orðið er. Var verðið skömmu fyrir þrjú að íslenskum tíma í dag komið í 41,33 dollara á tunnu, en var 42,63 dollarar í gær.   Olíuverðið er nú óðum að nálgast það lágmark sem náðist rétt fyrir áramótin eftir að hafa tekið sveiflu uppávið frá því á mánudag. Allar spár benda til að olíuverð muni haldast lágt fram eftir þessu ári og virðist sem stríðsátök á Gasa-svæðinu dugi ekki til vekja þann ótta sem leiðir til hækkana. Ástæðan er að olíubirgðir hafa verið að hlaðast upp víða um heim vegna ört minnkandi eftirspurnar og litlar líkur virðast á að það breytist á næstunni.