Hráolía hækkaði enn í verði í dag og nálgast nú tunnan 90 dollara markið samkvæmt frétt AP. Hækkaði olíutunnan um 82 sent í dag og endaði í 88,6 Bandaríkjadölum á hrávörumarkaðnum í New York. Það hafði í för með sér að eldsneyti á bensínstöðvum hækkaði um hálft sent, sem þýðir að eldsneyti á bensíndælum hefur hækkað um þrjú sent á einni viku og 37 sent á einu ári. Gallon af bensíni kostar í Bandaríkjunum rétt tæpa þrjá dollara.

Algengt verð á bensínlitra á Íslandi er nú um 206,5 krónur.

Á fundi OPEC-ríkjanna í Ekvador um helgina var ákveðið að halda framboði á olíu óbreyttu. Þrátt fyrir að miðlarar gerðu ráð fyrir óbreyttu framboði var ánægja með að fá þá spá staðfesta. Í greiningu JP Morgan kom fram að markaðsaðilar séu með athyglina á vilja, eða skorti á vilja, olíuríkjanna til að auka framboð til að slá á verðhækkanir. Þrátt fyrir að hærra olíuverð færi OPEC-ríkjunum meiri tekjur eru olíuherrarnir hræddir við að hátt verð skaði hagkerfi heimsins og dragi þar af leiðandi úr eftirspurn til lengri tíma.