Olíuverð hefur hækkað á ný eftir að stærsta verkalýðsfélag Nígeríu (The Nigeria Labour Congress) boðaði til almenns verkfalls síðar í mánuðinum til að mótmæla háu olíuverði. Þeir kölluðu Royal Dutch/Shell "helsta óvin Nígeríu" en fyrirtækið ræður yfir um helmingi af olíuframleiðslu landsins. Nígería er sjöunda stærsta olíuframleiðsluríki heims og hafa markaðsaðilar því áhyggjur af ástandinu en í kjölfar fjögurra daga verkfalls í október hækkaði olíuverð um 3%.

Verkfallið hafði þó ekki mikil áhrif á framleiðsluna en talið er að lengra verkfall geti haft alvarlegri áhrif á olíuútflutning. Sérfræðingar telja því að þetta verði helsti áhrifaþátturinn til hækkkunar olíuverðs til skamms tíma litið eins og segir í Vegvísi Landsbankans.

Í kjölfar verkfallsboðunar fór olíuverð yfir 52 dollara á mörkuðum í New York í morgun. Olíuverð hækkaði einnig á evrópska markaðnum og fór í 49,04 dollara (kl.14:30) eftir að hafa lækkað tvo daga í röð.