Eins og fjallað var um í Vegvísi Landsbankans í gær lækkaði olíuverð niður fyrir 50 dollara og leiddi þetta til þess að helstu hlutabréfavísitölur í Bandaríkjunum hækkuðu. Í dag varð viðsnúningur á olíuverðinu og hefur það hækkað það sem af er degi. Hækkun olíuverðs má rekja til áhrifa fellibylja á olíuframleiðslu við Mexikóflóa en þeir hafa valdið samdrætti í olíubirgðum Bandaríkjanna. Einnig má rekja hækkunina til þess að auknar áhyggjur eru á markaðnum um að uppreisnarseggir í Nígeríu muni ekki virða vopnahléið sem samþykkt var fyrir helgi.

Gengi hlutabréfa í Bandaríkjunum er næmt fyrir breytingum á olíuverði og því lækkuðu helstu hlutabréfavísitölur framan af degi. Þegar leið á daginn tóku vísitölurnar að hækka eins og bent er á í Vegvísi í dag.