Olíuverð hefur hækkað um meira en 5% í dag eftir að Sameinuðu arabísku furstadæmin sögðust mundu fylgja samþykkt Opec um niðurskurð á framleiðslu. Efasemdir hafa verið uppi um að olíuframleiðsluríkin myndu fylgja samþykkt Opec, en þau hafa hingað til verið treg til þess.

Abu Dhabi National Oil, stærsta olíufyrirtæki Sameinuðu arabísku furstadæmanna sagði í yfirlýsingu sem send var viðskiptavinum í Asíu að það mundi draga úr framboði olíu í janúar og febrúar.

Önnur ástæða hækkunar olíu er að Bandaríkjadalur lækkaði gagnvart evru. Þetta kemur fram í frétt Bloomberg.