Olíuverð hækkaði á eftirmarkaði á föstudaginn um 1,2% í kjölfar frétta um að olíuframleiðsla yrði minnkuð, segir greiningardeild Glitnis.

Sex OPEC ríki samþykktu að minnka olíuframleiðslu um 3,4% eftir mikla verðlækkun á olíu undanfarna tvo mánuði. Hráolíuverð náði sjö mánaða lágmarki um miðja síðustu viku en þá var tunnan á 57,75 dollara. Birgðastaða í Bandaríkjunum og Evrópu hefur verið góð og því átt þátt í mikilli verðlækkun að undanförnu.

Spurn eftir olíu eykst oft á fjórða ársfjórðungi hvers árs. OPEC sendi frá sér spá um miðjan september þar sem spáð var aukinni eftirspurn um 2,2% á fjórða ársfjórðungi. Samkvæmt spánni verður eftirspurn síðustu þrjá mánuði ársins 85,6 milljón tunnur á dag að jafnaði. Sérfræðingar segja að framleiðendur komi til með að haga málum þannig að lágmarksverð olíu sé í kringum 60 dollara á tunnuna, segir greiningardeildin.

Olíuframleiðslufyrirtæki eins og breska BP og Statoil í Noregi hækkuðu í verði eftir þessar fréttir.